Monday, May 11, 2009

Sunday, August 10, 2008

"Öryggiseftirlit"

Það verður augljósara með hverjum deginum að ísraelsk stjórnvöld hafa enga heilsteypta stefnu og hafa ekki hugmynd um hvað þeir ætla sér í málefnum hertekinnar Palestínu. Svo virðist sem að aðal markmið stjórvalda sé að gera líf Palestínumanna eins ómögulegt og unnt er án þess þó að almenningur innan og utan Ísraels geri sér grein fyrir því. Mjög lúmskt og hægt þjóðarmorð.

Eina leiðin til þess að komast að því hvað sé í gangi er að búa Palestínumanna, bendla sig við þá og komast að því að eigin raun. Engu samræmi gætir í stefni ísraelskra stjórnvalda á Vesturbakkanum, hvað má og hvað má ekki, hvar má gera hvað o.s.frv. Þeir komast upp með það að brjóta á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum daglega án þess að nokkuð sé að gert. Ég mun nefna tvö dæmi.

(1) Eins og ég hef líklega áður komið að þá mega íbúar Nablus ekki aka bílum sínum gegnum stærsta check pointið út úr borginni, Huwarrah án leyfis frá ísraelskum stjórvöldum. Sækja verður um leyfi með 3 mánaða fyrirvara og tilgreina þarf hversu lengi umsækjandi ætlar sér að vera lengi í burtu, með hverjum og af hverju. Þar að auki kostar umsóknarferlið 100 shekela. Ef umsóknin er samþykkt þá fær umsækjandinn tilgreinda dagsetningu og tíma sem honum er veitt leyfi, t.d. 6. september frá 09-18.

Dagurinn kemur og umsækjandinn keyrir á bílnum sínum í átt að Huwarrah. Þar bíður hans 20 bíla röð og umsækjandinn eyðir góðum hluta tímans sem honum er veitt leyfi í að bíða. Þegar röðin kemur að hans bíl er öllum sem í bílnum eru gert að ganga út úr bílnum, stundum með hendur á lofti, ganga burt frá bílnum og lyfta upp bolunum sínum og skálmum. Því næst er þeim gert að standa til hliðar á meðan að bílinn er rannsakaður til hlýtar.

Nú hugsa sumir sem kunna að lesa þetta: "þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja öryggi ísraelskra borgara".

En hvernig stendur þá á því að íbúar Nablus geti komist hjá þessu veseni og ekið 1 1/2 tíma fjallaleið framhjá "öryggiseftirlitinu" og komið niður hinum megin við Huwarrah? Og það með fullri vitneskju ísraelska hersins.

Á kortinu sést Nablus og þorpin í kringum borgina (gult) og ólöglegar landnemabyggðir Ísraela í kring (rautt). Check point eru merkt með einstefnumerki og bláir vegir eru eingöngu ætlaðir gyðingum

Strákur sem á íbúðina sem Project Hope leigir bauð mér í bíltúr og sýndi mér leiðina framhjá “öryggiseftirlitinu”. Við lögðum af stað frá heimili mínu á Ashara Asira um kl. 21 á sportbílnum hans og ókum í átt að Asira. Veginum frá Nablus að Asira er lokað klukkan 22 þannig að við vissum að við þyrftum að aka aðra leið heim. Vegurinn var grýttur og á köflum þurftum við að keyra utan vegar þar sem svokölluðum “earth mounds” hefur verið komið fyrir (hrúga af grjóti og sandi þvert yfir veginn). Við keyrðum gegnum Sabastya og Bizzanya áður en við komum að Enav check pointi. Hermennirnir sem tóku á móti okkur á Enav vissu að við værum að koma frá Nablus og að við værum á leiðinni til Ramallah. Það sást á glotti hermannanna að þeir eru vel meðvitaðir um að fólk fari þessa leið frá Nablus reglulega. Eftir nokkrar móðganir í okkar garð (að ég tali lélega ensku, án þess þó að athuga vegabréf, skilríki eða bílinn sjálfan, var okkur hleypt í gegn.
Þar fór öryggiseftirlitið fyrir lítið. Samkvæmt samræmingarskrifstofu SÞ eru Palestínumenn sem aka þessa leið ekki að brjóta í bága við ísraelsk lög.

Eftir Enav keyðrum við nútímalegan, beinan og greiðan veg í átt að Huwarrah. Eins og sjá má á kortinu er sá vegur einkum ætlaður landnemum frá Enav landnemabyggðinni. Það var skrítið að sjá svo Huwarrah check point út um bílgluggan, aðeins í um 10 mínútna fjarlægð frá íbúðinni minni.
Til þess að flækja flókann enn meira, og lengja ferðina enn frekar, þurftum við að fara aðra leið heim. Í stað þess að keyra Asira veginn að Nablus, eins og á leiðinni út, þurftum við að keyra norður til Taluza, gegnum Al Badhan og koma aftur til Nablus gegnum Askar flóttamannabúðirnar, því eins og ég minntist á áðan lokar Asira vegurinn klukkan 22.
Strákurinn sem sýndi mér þessa leið sagði mér einnig að það væri lítið mál að komast alla leið til Ísraels, hann þyrfti bara að punga út 200 shekelum og hringja í símanúmer hjá Ísraela sem stundar það að smygla fólki í gegn.

Abe

(2) Ég fór um helgina ásamt Abe og Kim norður til Akko, en Abe vildi fara þangað og sjá síðasta athvarf krossfaranna. Við ákáðum að reyna styðstu leiðina þangað frá Nablus, gegnum Jenin og “landamæri” Vesturbakkans (sem er í raun rangnefni því það er í raun enginn Vesturbakki til lengur, alla vega ekki í þeim skilningi sem lagt hefur verið í orðið hingað til) og Ísraels. Við fórum með servís alla leið að landamærastöðinni en þar fer fram strangt “öryggiseftirlit” sem Abe lýsti réttilega eftir á sem “obstacle course”.

Það var enginn að fara í gegnum landamærastöðina nema við og við fyrstu sýn virtist enginn vera á verði og án þess að ræða það nokkuð frekar löbbuðum í gegnum málmleitartækið með töskurnar á bakinu. Tækið pípti að sjálfsögðu og við litum ósjálfrátt í kringum okkur. Þá heyrðum við rödd kalla í hátalarakerfi: “Farið til baka, skiljið töskurnar eftir á borðinu, tæmið vasana, takiði af ykkur beltin og labbið aftur í gegn”. Við litum betur í kringum okkur og sáum að það var maður inn í brynvörðum járnklumpi á vinstri hönd. Eftir að við höfðum gert eins og hann sagði bað hann okkur vinsamlegast um að opna töskurnar okkar og sýna honum innihaldið. “Hvaðan eruð þið?” spyr náunginn.

Þetta var aðeins fyrst hluti hindrunarhlaupsins. Þegar við komum inn í bygginguna sáum við fullt af hurðum og á einni þeirra var A4 blað þar sem einhver hafði teiknað ör á. Við litum hvort á annað glottandi og aftur án þess að segja nokkuð gengum við inn um merktu hurðina. Þar var röntgentæki og til beggja handa voru hermenn inn í klefa. Okkur var bent á að setja töskurnar okkar, beltin, myndavélarnar og annað sem við vorum með í vösunum gegnum röntgentækið. Hermennirnir töluðu hver ofan í annan og spurðu okkur til skiptis hvaðan við værum, hvað væri í töskunum og hvort við værum með vegabréfsáritun. Ég framvísaði vegabréfinu mínu og hermaðurinn bað mig um að opna töskuna mína, taka Lonley Planet bókina mína upp úr henni og fletta í gegnum hana. Abe og Kim þurftu að gera það sama.

Þegar þessi hluti “öryggiseftirlitsins” var yfirstaðinn héldum við að gamanið væri búið, en svo var aldeilis ekki. Hermennirnir bentu okkur á að yfirgefa herbergið og ganga í gegnum hurð nr. 1. Við opnuðum hurð sem merkt var nr. 1 (aftur krot á A4 blaði) og við okkur blasti 4 fm klefi með þrem útgöngm. Hurðin lokaðist á eftir okkur og við komumst hvergi út, allar hurðirnar voru læstar. Rödd kallaði í hátalarakerfi: “Labbið inn um hurðina á hægri hönd og skiljið eftir töskurnar ykkar og myndavélarnar og farið aftur til baka”. Bizz, hurðin opnaðist. Við gerðum eins og hann sagði þegjandi og hljóðalaust og gengum aftur til baka í rými nr.1.

Eftir smástund, þegar ég hafði sest á gólfið, var kallað aftur í hátalarakerfið: “Afsakið, ég var ekki nógu skýr, takið veskin ykkar og vegabréfin upp úr töskunum og skiljið þau eftir þar sem við sjáum þau”. Bizz, hurðin opnaðist. Við horfðum hvort á annað í vantrú en gerðum samt það sem við vorum beðin um. Við biðum í nokkrar mínútur þangað til röddin hljómaði aftur í hátalarakerfinu: “Takk fyrir samvinnuna, þið megið sækja töskurnar ykkar og fara gegnum hurðina á vinstri hönd”. Nú hlaut þetta að vera búið hugsaði ég með mér.

Þegar við yfirgáfum rými nr. 1 sá ég betur að um var að ræða hálfgert vöruhús. Fyrir ofan okkur gekk dökkhærður, síðhærður maður með vélbyssu, klæddur í hvítan stuttermabol og svartar gallabuxur. Maðurinn gekk um á málm gólfi fyrir ofan okkur og sjónin minnti mig helst á atriði úr Die Hard bíómynd. Rýmið var opið og stórt og fyrir framan okkur voru nokkrir básar þar sem vegabréfseftirlit fer fram. Í einum básnum situr stúlka klædd svipuðum fötum og maðurinn með vélbyssuna. Hún biður okkur um framvísa vegabréfunum okkar og eftir smá umhugsun bendir hún okkur á að setjast niður og bíða. Á bekknum situr maður á sextugsaldri með kartöflur í trefjapoka. Hann segir okkur að hann sé frá Jenin en vinni stundum Ísraelsmegin.
Stúlkan sem tók vegabréfin okkar talaði í síma og horfði á okkur á meðan. Eftir nokkrar mínútur komu maður og kona í sömu einkennisklæðum, tóku vegabréfin okkar og fóru inn í einn básinn. Við sáum hvernig þau ræddu heillengi saman og horðu á okkur inn á milli. Eftir um 10 mínútur yfirgáfu þau básinn en héldu þó áfram að ræða saman. Nokkru seinna kalla þau til Abes og biðja hann um að koma. Abe er orðinn frekar heyrnarskertur enda orðinn 73 ára gamall og við heyrðum því skýrt og greinilega hvað fór þeim á milli. Konan sá um að spyrja spurninganna en maðurinn stóð við hlið hennar og sagði ekki orð. Abe sagði þeim einfaldlega sannleikann, að við værum að koma frá Nablus þar sem við ynnum hjá Project Hope við enskukennslu og að við værum á leiðinni að skoða Akko. Þau spurðu hann hvernig við þekktumst, af hverju við værum að ferðast saman o.s.frv. Þegar yfirheyrslan yfir Abe var yfirstaðinn gekk hann aftur að bekknum til okkar og “hvíslaði”: “Haldið ykkur við sannleikann, ég endurtek, haldið ykkur við sannleikann”.

Næst kölluðu þau eftir Kim. Kimberley, eins og hann heitir réttu nafni, er maður á fimmtugsaldri frá Ástralíu. Hann hefur ferðast töluvert og þeir Abe hafa þekkst síðan 2006. Við heyrðum ekkert af því sem fór þeirra á milli en ég var farinn að finna til mikillar reiði í garð konunnar, eða réttara sagt stelpunnar, sem sá um yfirheyrsluna.
Kim kom til baka og ég beið eftir því að þau myndu kalla á mig. “Anna”. Ég gekk til þeirra og ég fann hvernig hjartað á mér var á fullu, mér stökk ekki bros á vör.

Hún: “Ég er frá öryggiseftirlitinu og ætla að spyrja þig nokkurra spurninga”
Ég: “Ekkert mál”
Hún: “Hvaðan ertu að koma?”
Ég: “Ég er að koma frá Nablus”
Hún: “Hvað vastu að gera í Nablus?”
Ég: “Ég kenni ensku þar”
Hún: “Hjá hvaða samtökum”
Ég: “Project Hope”
Hún: “Hvað ertu búin að vera þar lengi?”
Ég: “Rúmlega 10 vikur”
Hún: “Er þetta í fyrsta skiptið þitt á Vesturbakkanum?”
Ég: “Nei, ég kom til Palestínu fyrir þremur árum”
Hún: “Hvað varstu lengi þá?”
Ég: “Tæpan mánuð”. Hún vissi alveg svarið við spurningunni minni, búin að rannsaka vegabréfið mitt í meira en hálfa klukkustund.
Hún: “Hvert ertu að fara?”
Ég: “Við erum að fara til Acco og ætlum að gista þar í eina nótt”
Hún: “Hver eru tengslin milli þín og þeirra?” Hún benti á Abe og Kim.
Ég: “Við vinnum öll saman”
Hún: “Hvert ætliði að fara eftir Acco?”
Ég: “Ég veit ekki með þá en ég er að spá í að fara jafnvel til Haifa og fara á ströndina í nokkra klukkutíma. Kannski ákveða þeir að gera eitthvað annað”
Hún: “Nú eruði ekki að ferðast saman?”

Nú var hún virkilega farin að stuða mig. Hvað kemur það henni við hvað ég sé nákvæmlega að fara gera og með hverjum? Hvað hefur það með öryggiseftirlit að gera? Þau vita nákvæmlega hver ég er, hvað ég er með í töskunni minni, hvaða myndir ég hef tekið, hvernig handklæðið mitt er á litinn og hvaða stærð og tegund af nærbuxum ég nota.

Ég: “Jú, jú, við erum samferða, en ég er frjáls manneskja og kem frá landi þar sem fólk er frjálst og ég get farið þangað sem mér sýnist. Ef mig langar á ströndina þá fer ég þangað”

Þetta setti hana aðeins út af laginu. Hún leit niður og svo á manninn og svo til mín.

Hún: “Þú mátt setjast niður aftur”
Þau gengu aftur inn í básinn og fóru að tala saman. Ég settist niður hjá Abe og Kim og við biðum. Abe var orðinn ansi óþreigjufullur þegar við höfðum beðið í 15 mínútur. Maðurinn með kartöflupokann var farinn, hann fékk að fara aftur heim til sín. Abe gekk að básnum og kallaði: “Hvað er eiginlega í gangi? Fáum við að fara í gegn eða ekki? Getum við ekki bara fengið vegabréfin okkar aftur og farið gegnum Jerúsalem?”

Maðurinn og konan komu út úr básnum og sögðu okkur að við mættum fara í gegn en að við þyrftum leyfi frá ísraelsher til þess að fara inn á Vesturbakkann. Að við hefðum farið inn á lokað “stríðssvæði” án þess að sækja um leyfi hjá hernum. Við bentum henni á það að þetta væri í fyrsta skiptið sem að við hefðum heyrt af þessu, að hver sá sem vill kemst inn á Vesturbakann gegnum Jerúsalem án þess að sýna nokkurri einustu manneskju vegabréf. Hún sagði að það kæmi sér ekki við, þetta væru hennar fyrirmæli og hún sé bara að fylgja þeim.

Við fórum lengri leiðina heim.

Maður spyr sig eftir á hvort það sé tilviljun að stysta leiðin sé sú erfiðasta, í báðum dæmunum sem ég nefni. Hvort að ísraelsk stjórvöld vinni svo gjörsamlega án allrar samfellu eða hvort að þetta sé nákvæmlega planið, að gera líf Palestínumanna eins erfitt og óbærilegt og unnt er.

“Ófriður er árangursríkari en friður” heyrði ég í dag. Á Vesturbakkanum ríkir friður, engin mótstaða, engin uppreisn, allt með kyrrum kjörum og ekkert er gert. Ekkert breytist. Öðru máli gegnir um Gaza og Líbanon, svo virðist sem að ófriður og ógn í garð Ísraelsmanna sé það eina sem virki þessa daganna.

Thursday, August 7, 2008

Vegabréfsáritun

Við Dominique fórum frá Nablus síðasta sunnudag. Hann átti flug frá Tel Aviv aðfararnótt þriðjudagsins og ég þurfti að framlengja vegabréfsárituninni minni. Það skemmtilega við að vera með Dominique er að það er ekkert stress, við þurfum ekki einu sinni að tala saman, bara þögult samþykki um að leyfa hlutunum að koma í ljós, að þróast í þá átt sem þeim er ætlað, nokkuð sem við sem alþjóðafólk getum gert. Ekkert plan, bara hugmynd.

Huwarra Check Point

Til að komast frá Nablus þarf maður í fyrsta lagi að taka servís að Huwarra check pointi sem er í um 5 mínútna akstursfjarlægð frá miðbænum. Servísinn stoppar í um 500 m fjarlægð frá check pointinu sjálfu innan um hrúgu af öðrum servísum sem ferja fólk niður í bæ og upp úr bæ. Við tekur nokkra mínútna gangur að check pointinu, þríhryrndu skýli við veginn, þar sem fólk skipar sér í raðir; ein fyrir konur, fjölskyldur, aldraða og aðrar tvær fyrir karlmenn á aldrinum 18-45 ára. Biðin er alls ekki svo löng hjá okkur sem förum í konu/fjölskylduröðina, kannski í kringum 10 mínútur, en karlmennirnir bíða upp í 3 klst eftir því að komast í gegn. Þeim er hleypt í gegn eftir geðþótta, oftast á hraðanum 10 menn/klst. Það gefur auga leið að það tekur ekki 6 mínútur að labba gegnum málmleitartæki. Röðin líður áfram og maður bíður eftir merki frá hermanninum að maður megi ganga yfir rauðu línuna í áttina að honum. Ég hef skjaldnast lyst á því að tala við hermennina. Rétti vegabréf, bendi á ICELAND framan á vegabréfinu þegar hann spyr hvaðan ég sé, horfi á hann eins og hann sé geimvera þegar hann spyr hvað ég sé að vilja í illa lyktandi bæli eins og Nablus og bíð eftir að hann gefi mér merki um að ég megi fara í gegn. Þeir eiga það jafnvel til að kalla á eftir manni "Go to Tel Aviv".

Servísarnir

Hinum megin við Huwarra eru stórir servísar sem ferja 7 farþega í einu. Bílstjórarnir kalla í kappi við hvern annan "Jericho", "Ramallah, Ramallah", "Bethlehem" og þar fram eftir götunum. Við settumst upp í servís á leið til Ramallah, án þess að ræða það eitthvað sérstaklega. Með okkur í öftustu sætunum var strákur. Hann var í kringum 25 ára, klæddur eins og aðrir Nablus strákar; gallabuxur, köflótt, hneppt skyrta, strigaskór og hálf túpa af geli í hárinu. Dominique er sérstakur af því leiti að hann hugsar eins og barn, algerlega óháður öllum staðalímyndum og æskilegri hegðun. Hann hélt í sætisbakið fyrir framan sig, beygði sig og snéri og leit í allar áttir. Hann og strákurinn byrja að tala saman með handapati og stikkorðum. Benda á þorp og segja nafnið á þeim. Strákurinn tekur upp símann sinn og gefur Dominique merki um að horfa á video á símanum sínum. Videoið byrjaði þannig að ísraelskur herjeppi nemur staðar og þrír hermenn stökkva út úr honum. Þeir læðast hratt áfram og miða hríðslotabyssunum sínum í allar áttir. Svo þegar ég var alveg sannfærð um að eitthvað hræðilegt væri að fara að gerast öskrar hermaður í kallkerfi úr bílnum, arabísk tónlist hljómar og hermennirnir fara að dansa.

Arafat og Domi

Dominique og strákurinn, sem heitir Arafat, verða fljótlega hinir mestu mátar, Arafat gefur Dominique skyrtu úr pokanum sínum (hann vinnur í fataverslun í Ramallah en er frá Nablus) og Dominique gefur Arafat derhúfuna sína. Þeir taka myndir af hvor öðrum, takast í hendur og halda áfram að skoða video. Eftir klukkustund, tvö check point í viðbót og brotnar samræður við Arafat komum við til Ramallah. Arafat bauð okkur með sér á kaffihús. Við drukkum ávaxtakokteila og reyktum nargilu, Dominique í nýju skyrtunni sinni og Arafat með nýja hattinn sinn. Við ákváðum að koma okkur til Jerúsalem og Arafat fylgdi okkur að servísstöðinni, fleiri myndir voru teknar og við kvöddumst.

Kalandía Check Point

Rúta númer 18 keyrir frá Ramallah til Jerúsalem. Ferðin tekur um 45 mínútur þó aðeins sé um að ræða 15 km. Á Kalandía check pointi, milli Ramallah og Jerúsalem, fer fram öryggiseftirlit. En það sem er kannski skrítnast við öryggiseftirlitið er að það er ekkiert öryggiseftirlit, aðeins aðskilnaðaraðgerð. Hermaður kemur inn í rútuna, biður fólk um skilríki. Þeir sem eru með grænt skilríki en ekki leyfi frá ísraelska ríkinu eru beðnir um að yfirgefa rútuna og snúa til baka. Blá skilríki og erlend vegabréf með vegabréfsáritun fá að fara í gegn.

Múrinn milli Jerúsalem og Ramallah

Frá check pointinu keyrum við svo meðfram múrnum og inn í Jerúsalem. Ramallah var áður fyrr kristið úthverfi Jerúsalem en með tíð og tíma og nauðungaflutningum Palestínumanna frá Jersúalem hefur Ramallah orðið eins konar flóttamannanýlenda. Borg sem myndaðist sem afleiðing hernámsins, ótýpísk palestínsk borg.

Damascus hliðið

Við komum til Jerúsalem um 21 og röltum af stað í átt að Damascus hliðinu í A-Jerúsalem, kíktum inn á hostel í gömlu borginni en enduðum á gamla góða Faisal sem er rétt utan við gömlu borgina. Þar hittum við tvo spænska menn sem bjuggu í Askar flóttamannabúðunum í Nablus í nokkrar vikur. Við settumst niður með þeim, sötruðum á bjór, reyktum nargilu, töluðum um Palestínu, deildum myndum og reynslusögum. Það var afskaplega notalegt.

Faisal hostel

Snemma morguninn eftir kvaddi ég Dominique og hélt af stað til Tel Aviv. Hann ætlaði að vera eftir í Jerúsalem, senda geilsladiska með pósti og jafnvel fara með spænsku strákunum að fylgjast með því þegar ísraelsk stjórnvöld jafna hús Palestínumanna við jörðu. Ég tók rútu frá V-Jerúsalem til Tel Aviv og reyndi að finna leigubíl til þess að finna innanríkisráðuneytið. Ég fann leigubílstjóra og reyndi að útskýra fyrir honum hvert ég vildi fara, Ministry of Interior, visa extension, passport, big building, big street. Hann þóttist skilja hvað ég átti við, reif kjaft alla leiðina, rukkaði mig 1000 kr, og rak mig úr bílnum fyrir framan kreditkortafyrirtæki. "Visa" sagði hann og benti á stóra byggingu. "No, this is not it". "Yes, this!"
Ég fór úr leigubílnum 1000 kr. fátækari og á röngum stað. Ég sá innanríkisráðuneytið í fjarlægð, gekk í áttina og var komin þangað 20 mínútum síðar. Eftir 4 tíma var ég svo komin með vegabréfsáritun fram að brottför. Engar spurningar, engin yfirheyrsla.

Nablus

Ég tók næsta strætó aftur að umferðar- miðstöðinni og tók næstu rútu til Jerúsalem. Í stað þess að taka strætó frá V-Jerúsalem til A-Jerúsalem ákvað ég að genga endilanga Jaffa götu. Þar rakst ég fyrir tilviljun á Dominique og annan spænska gaurinn. Þeir voru á leið inn í póthúsið þegar ég rakst á þá. Þeir sögðu mér að hinn spænski blaðamaðurinn hafi farið til Hebron um morguninn, orðið fyrir grjótkasti frá landnemunum og hann handtekinn í kjölfarið. Hann var handtekinn fyrir að verða fyrir grjótkasti. Það verður líklega til þess að hann fái ekki að koma aftur til Ísraels næstu 5-10 árin.
Við Dominique yfirgáfum Spánverjan og röltum niður í gömlu borg, settumst þar niður og drukkum kaffi. Um kvöldið kvöddumst við svo aftur og ég snéri til baka til Nablus.

Friday, August 1, 2008

The Allenby experience

Jórdaná

Á föstu- dagsmorgun tókum við Gunnar, Domi, Rozina og Ciara rútu frá Jerúsalem að King Hussein/Allenby brúnni, sem er landamærastöð milli Ísraels og Jórdaníu. Það var nú frekar fyndið að keyra yfir brúna sem markar skilin milli landanna og sjá Jórdaná, á sem maður heyrir mikið nefnda, en er ekki breiðari en 2 metrar. Stórauðugur jódanskur vinur Rozinu hafði boðist til þess að sækja mig, Rozinu og Ciaru þegar við kæmum til Amman, gista á heimili hans og fara með okkur til Petru og að Dauða hafinu. Svo bættust Domi og Gunnar við og þá var ég svolítið á milli steins og sleggju vegna þess að ríki strákurinn var ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að hýsa 38 ára franskan anarkista frá Absúrdistan (að eigin sögn). Ég ákvað því að vera bara með strákunum, við myndum gista hjá Wahbi bróður Abe’s, leigja okkur bílaleigubíl í Amman á laugardagsmorgninum, keyra til Petru og eyða deginum þar með hinum krökkunum og halda svo enn sunnar og jafnvel fara til Wadi Ram, gista þar fram á sunnudag og fara þaðan til Aqaba. Planið stóðst hins vegar ekki.

Amman

Það tók all nokkurn tíma að komast yfir til Jórdaníu, fyrst gegnum ísraelska hluta landamæranna og svo jórdanska. Þegar við komum til Amman sótti ríki strákurinn okkur öll og keyði mig og strákana að hitta Wahbi. Seinni part dagsins keyði hann svo okkur niður í “gömlu” borgina, við borðuðum írakskan mat (sem var furðulegt nokk eins og íslensk kjötsúpa), skoðuðum okkur um og löbbuðum um alla Amman fram á nótt.

Bílinn okkar

Við vöknuðum spræk kl. 8 á laugardagsmorgun til þess að geta drifið okkur af stað til Petru. En það var nú hægara sagt en gert því það reyndist ómögulegt að fá bílaleigjubíl. Við þræddum allar leigur og það endaði með því að okkur var lofað bíl klukkan 14. Á meðan við biðum eftir bílnum fórum við að Amman háskóla og slæpuðumst þar um þangað til kl. 14. Þegar við komum svo aftur niður á bílaleigu sagði kallinn að bílinn kæmi ekki fyrr en kl. 17. Hann lofaði að þá myndi hann vera tilbúinn, annars skyldum við fá hans bíl að láni. Við tókum taxa niður í “gömlu” borg, fengum okkur kafta og röltum um. Við vorum orðin ansi efins um að við fengjum bíl yfir höfuð, en viti menn, þegar við komum kl. 17 þá beið okkar ansi vel útlítandi bíll.

Domi á hraðbrautinni

Loksins vorum við lögð af stað og að sjálfsögðu keyrði ég. En bílinn var nánast bensínlaus og við höfðum lagt allan peninginn okkar til tryggingar á bílnum. Við fundum sem betur fer bensínstöð áður en við komum út ú Amman og rétt náðum að safna saman síðustu aurunum til þess að fylla tankinn. Þá var að redda peningum. Við höfðum ekki hugmynd um hvar hraðbanka væri að finna og við ókum eftir stórri hraðbraut. Maðurinn á bílaleigunni hafði sagt okkur að fylgja vegamerkingum að flugvellinum þannig að við ákváðum að koma við á flugvellinum og taka út pening. Auðvitað var þvílík öryggisgæsla þar og hermönnunum fannst frekar hlægilegt þegar við sögðum þeim að við værum komin þangað til að taka út pening. En það gekk og þá gátum við keyrt af stað áhyggjulaus í átt að Petru.

Vatn lak úr vélinni

Þegar við vorum komin um 100 km frá Amman var farið að dimma og við ákváðum að stoppa og njóta sólsetursins í eyðimörkinni. Þá spyr Gunnar allt í einu hvort einhver hafi hellt vatni á götuna. Við litum undir bílinn og þá lak helvítis bílinn. Gat verið. Ég hringdi í bílaleigukallinn og lýsti aðstæðunum. Hann hló og sagði að þetta væri nú bara vatn frá miðstöðinni.
Við komum til Wadi Musa, sem er túristabær við hliðina á Petru, um kl. 22 á laugardagskvöldið eða um 11 klst. eftir áætlun. Þar fundum við hótel sem mælt var með í túristabókinni hans Gunna og bókuðum herbergi. Snemma morguninn eftir keyrðum við svo til Petru, borguðum morðfjár inn á svæðið, 21 dinara eða rúmar 2500 kr.

Sami lagaði te fyrir okkur við lækinn

Petra var auðvitað undursamleg og stóð undir væntingum hvað varðar mikilfengleika hennar. Leiðin um Petru er ansi löng og tekur nokkra klukkutíma að ganga upp á topp. Betúínastrákar bjóða túristum að ríða ösnum sínum upp brattar hliðar Petru og taka smáaura fyrir. Ég sló til og settist á bak og strákarnir sömuleiðis. Betúínastrákarnir fóru með okkur út fyrir venjulega leið að læk sem rennur í dal aðeins neðan við Petru. Við settumst þar niður í laut, kveiktum bál, sóttum vatn í lækinn og hitum okkur te.

Ég og múlasninn Monika

Eftir góða afslöppum í þessari sannkölluðu paradís buðu betúíastrákarnir okkur að koma með sér upp á topp Petru þar sem vinir þeirra væru með tjald efst á fjallinu með útsýni yfir Wadi Araba og alla leið til Palestínu. Við slóum til. Það var svo ofboðslega friðsælt og fallegt þarna að við enduðum á því að eyða þar nóttinni og öllum mánudeginum. Þar kynntumst við fjótum betúínum sem eyða meirihluta daga sinna í tjaldinu á toppi veraldar, þeim Mohammed, Fawas, Sameh og Abet. Abet spilaði á út gítar, Mohammed trommar og Fawas spilar á flautu. Við sungum, fórum í vatnsleiðangra á ösnunum og múlösnunum, lágum og störðum á milljón stjörnur, löbbuðum um, hjálpuðumst að við að elda mat yfir báli og drukkum óhóflega mikið magn af tei. Á mánudeginum höfðum við hugsað okkur að leggja af stað snemma um morgunninn aftur til Amman, enda áttum við að skila bíluleigubílnum kl. 17, en Mohammed hringdi fyrir mig í kallinn og tilkynnti honum að okkur myndi seinka.

Betúínastrákarnir Fawas og Abet

Til þess að við þyrftum ekki að greiða fyrir auka dag í Petru buðu Fawas og Mohammed okkur að ríða með sér í Betúínaþopið sitt þaðan sem hægt var að komast aðra leið út. Við lögðum af stað um fimm leitið ríðandi til þorpsins. Leiðin var löng og hlykkjótt, upp og niður fjallshliðarnar, en svo draumi líkust að mig langaði eiginlega ekkert að fara. Þegar við komum til þorpsins var að sjálfsögðu boðið upp á te og Fawas fór í Betúína fötin sín, en hann hafði áður verið klæddur eins og dauðarokkstjarna. Frá þorpinu tókum við svo leigubíl niður til Petru, sóttum bílinn okkar og keyrðum með strákunum heim til Mohammeds. Þar gátum við öll farið í sturtu til skiptis og sátum þess á milli í hring á gólfinu, hlustuðum á tónlist og klöppuðum saman lófum.

Tjaldið þar sem við eyddum tveim dögum og einni nótt

Klukkan var rúmlega 23 þegar við lögðum loks af stað til Amman en það var ótrúlega erfitt að koma sér af stað enda mjög freistandi að verða bara eftir og gleymast. Við uppgötvuðum fljótlega að við höfðum tapað lyklunum af íbúðinni í Amman og hringdum því í Wahbi sem sagði okkur að þetta væri eini lykillinn að íbúðinni og það væri lítið sem hann gæti gert enda að nálgast miðnætti. Við keyrðum samt sem áður áfram í átt að Amman, Gunnar rotaður aftur í og við frakkinn að halda hvort öðru vakandi við aksturinn. Um 3 leiðið komum við svo til Amman og sváfum í bílnum fyrir utan íbúðina. Ég held ég hafi sofið í svona 2 tíma.

Útsýni frá tjaldinu okkar

Á þriðjudagsmorgun vaknaði ég klukkan 7 og ýtti við strákunum. Leigubílstjóri sem við könnuðumst við keyrði framhjá bílnum okkar fyrir tilviljun og spurði okkur hvað í ósköpunum við værum að gera. Við útskýrðum sólarsöguna og hann hringdi í aðstoðamann Wahbi sem kom út úr íbúðinni okkar með aukalykil sem var svo eftir allt saman til. Við sóttum dótið okkar í íbúðina, skiluðum bílnum og brunuðum út að landamærunum því ég átti að kenna ensku kl. 15 og 16:30.



Ég var svo langþreytt og útkeyrð þegar við komum að brúnni að mig svimaði. Það var ekkert vesan á jórdanska hluta brúnnar en aðra sögu er að segja af ísraelska hlutanum. Þegar við komum að byggingunni þar sem landamæraeftirlit fer fram voru um 300 Palestínumenn í röð að bíða eftir að ganga í gegnum málmleitartæki o.s.frv. Allt í góðu með það. Það er eðlilegt. En allt í einu tóku hermennirnir upp á því að reka alla út úr byggingunni og skipuðu þeim að standa á grasfleti í um 20 metra fjarlægð frá byggingunni. Þar stóðum við svo ásamt 300 Palestínumönnum í steikjandi hita, beint undir sólinni í um 15 mínútur. Á meðan stóðu hermennirnir í skugga, beint á móti okkur, upp við bygginguna, talandi saman um guð veit hvað, hlægjandi og brosandi. Algerlega tilgangslaus aðgerð. Það rann á mig smá reiði við að verða vitni að þessu, en ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir því þá að þetta var aðeins upphafið að 10 klst. veru minni í þessari blessuðu byggingu.

Þegar við fengum svo að fara aftur inn hélt eftirlitið áfram. Þá sé að að maður kemur inn í bygginguna og hann ýtir á undan sér hjólastól með elstu konu sem ég hef í lífinu séð. Hún hélt ekki einu sinni höfði. Fólkið sem stóð í röðinni hleypti þeim fremst og þegar þau nálguðust málmleitartækið skipar ungur hermaður konunni að standa upp úr stólnum og ganga í gegnum málmleitartækið. Konan gat það að sjálfsögðu ekki þannig að þrír menn héldu konunni á fótum og gengu með henni gegnum tækið. Það pípti. Hermaðurinn skipar konunni að fara til baka og ganga aftur í gegn. Mér sýndist konan vera búin að missa meðvitund. Ekki nóg með það heldur skipaði hermaðurinn henni að fara úr skónum og láta þá gegnum röntgentækið. Hún var að sjálfsögðu ekki fær um það sjálf þannig að fjórði maðurinn þurfti að taka hana úr skónum og fjarlægði í leiðinni lykil úr vasa konunnar sem hafði valdið því að tækið pípti. Rúmlega mínútu seinna, þegar hermaðurinn var tilbúinn benti hann þeim að labba aftur í gegn. Ekkert píp og konan var lögð aftur niður í hjólastólinn, klædd í skóna og henni rúllað í næstu röð. Ég sá þessa konu ekki meir.

Á meðan að ég beið í næstu röð, sem var vegabréfsáritunarröðin, var ég orðið enn þreyttari og enn pirraðri. Salurinn var fullur af Palestínumönnum, bæði búsettnum í Palestínu og öðrum löndum og þau voru öll að bíða eftir því að vera yfirheyrð. Hvað ertu að fara að gera, hverja þekkiru, hvað er númerið þeirra, hvað heitir amma þín o.s.frv. Ég fann að mig langaði ekki að ljúga lengur, mig langaði ekki að gera þeim til geðs að þykjast vera að fara á ströndina á Tel Aviv, mig langaði ekki að leyna því að ég byggi í Nablus, mig langaði ekki að halda áfram lyginni. Með því að ljúga er ég bara enn frekar að ýta undir þá hugmynd þeirra að Nablus og Vesturbakkinn sé staður sem enginn eigi að sjá eða tala um.
Þegar röðin kom svo að mér spyr 19 ára stelpan í áritunarklefanum:

Hún: hver er tilganurinn með heimsókn þinni til Ísraels?
Ég: ég vinn þar
Hún: við hvað eru að vinna þar?
Ég: ég kenni ensku og fyrstu hjálp
Hún: hvar?
Ég: í Nablus (Gunni missir anditið)
Hún: Ok (ég sá ekki viðbrögðin hennar enda andlit hennar að mestu falið bakvið hátt borð sem hún sat við)...bíddu aðeins...(hún pikkar inn í tölvuna)...sestu niður og það kemur hermaður að tala við þig á eftir.

Ég settist niður við hlið fjölskyldu sem beið þess að vera yfirheyrð. Svo kom Gunni og settist niður og beið. Svo kom Domi, svo Ciara (hún sagðist hins vegar vera túristi að ferðast um Ísrael og við þóttumst ekki þekkjast).
Eftir klukkutíma komu tvær 19 ára gelgjuhermenn:

Þær: Ok...sko það var ýkt auðvelt að finna þig...eina ljóshærða manneskjan hér...ok...hvað ertu að gera í Nablus?
Ég: ég er að kenna þar ensku og fyrstu hjálp
Þær: hjá hvaða samtökum ertu að vinna
Ég: ég er að vinna sjálfstætt, ég fer í þorp og kenni fullorðnum konum sem vilja læra skyndihjálp og ensku
Þær: hvar í Nablus býrðu?
Ég: það eru ekki götunúmer í Nablus, viltu samt götuheitið?
Þær: hvaða hverfi, Nablus er sko ýkt stór borg
Ég: Asira
Þær: með hverjum býrðu?
Ég: fullt af fólki
Þær: ertu með einhver skjöl sem sanna að þú sért að vinna í Nablus?
Ég: nei
Þær: ertu með einhver símanúmer hjá konunum sem þú kennir skyndihjálp
Ég: þær eiga ekki síma
Þær: þá verðum við að vísa þér úr landi
Ég: og hvert á ég að fara?
Þær: ég veit það ekki
Ég: á hvað forsendum viljiði vísa mér úr landi, hvers konar ógn er ég?
Þær: ok...ég er bara hermaður...þetta eru skipanir frá officernum
Ég: þá vil ég fá að tala við officerinn
Þær: ok...ég skal segja honum það

Fjórum eða fimm tímum seinna, þegar Gunnar og Domi, sem báðir sögðust vera að ferðast um og vinna á Vesturbakkanum, voru farnir í gegn með 3 mánaða visa í vegabréfunum sínum, kom officerinn. Hann var grannur, ungur maður, lítið eldri en um tvítugt, kannski 21. Hann spyr mig aftur sömu spurninga og fer. Hálftíma seinna kemur hann aftur og spyr hvað ég hafi verið að gera í Jórdaníu. Sjá Petru segi ég. Hann hverfur aftur.
Klukkutíma síðar kemur hann aftur og þá var ég orðin ansi þreytt. Ég segi við hann að ég sé að segja sannleikann, að ég hafi auðveldlega getað logið að honum. Ég þarf að komast aftur til Nablus, sagði ég, þar sé allt dótið mitt, tölvan mín og öll fötin mín eru. Ég segi honum að ég sjái ekki hvert vandamálið sé. Ég er ekki á sakaskrá, ég er ekki ógn við tilveru Ísraels, ég hafi ekki verið lengur í landinu en mér er heimilt að vera og að ég sé að vinna mannúðlegt sjálboðaliðastarf. Ég fékk hins vegar engin svör.
Nokkru seinna kemur hann til mín og réttir mér vegabréfið mitt. Ég opna það og sé að ég hafi fengið eins vikna visa. Flugið mitt fer frá Tel Aviv eftir 3 vikur og ég má ekki vera í Tel Aviv þá.

Aðskilnaðarmúrinn milli Ramallah og Jerúsalem, við Kalandía Check Point

Ciara fékk sína áritun á sama tíma og ég, nema að hún fékk það til þriggja mánaða. Þegar við löbbuðum svo burt frá vegabrefsáritunarstaðnum tók við önnur röð. Þar var mér hleypt í gegn en Ciara þurfti að bíða í hálftíma í viðbót. Engin ástæða. Bara bíða.
Þegar ég kom svo til Nablus undir nótt höfðu allir heyrt af því að ég hafi bara fengið viku visa. Meira að segja leigubílsstjóri hafi sagt Abe frá því. Stórfjölskyldan mín i Nablus hafði haft miklar áhyggjur og allir voru boðir og búnir að hjálpa til.

Erfiðast við þetta allt er að fá engin svör fyrir óréttlætinu. Ég upplifði þetta í einn dag, í eitt skipti en líf Palestínumanna er líf án svara. Óréttlæti og niðurlæging án ástæðu.

Ég fór með Abe til Tel Aviv á miðvikudaginn og reyndi að framlengja visað mitt. Hann fékk sínu framlengt en ekki ég. Ég þarf að reyna aftur á sunnudag/mánudag. Annars þarf ég að fara til Jórdaníu eða Egyptalands aftur og panta mér nýtt flug.


Árásir landnema halda áfram

Wednesday, July 30, 2008

Nilin

Frétt af Maannews.net:

17-year-old shot by Israeli forces in coma
Date: 31 / 07 / 2008 Time: 09:26

Bethlehem - Ma'an – 17-year-old, Yousef Ahmad Amira was put into a coma on Wednesday evening after being shot twice in the head by Israeli soldiers in Ni'lin to the West of Ramallah, medical sources told Ma'an.

Eyewitnesses said Amira was shot twice from close range by Israeli forces during a curfew imposed on the town on Tuesday after ten-year-old, Ahmad Husam Yousif Musa, was shot and killed.

Aiman Nafe', Mayor of Ni'lin said that six other young men were shot after Israeli forces increased their numbers at the entrance of the village before throwing sound bombs and tear gas grenades and opening fire randomly at civilians houses.

Amira was rushed to Ramallah hospital intensive care ward where he is said to be in a critical condition.

There have been regular demonstrations in Ni'lin against the building of the sepraration wall near the village, which will confiscate residents' land. These protests have made Ni'lin a target for Israeli forces actions, which have seen many injured and one killed.

Tuesday, July 22, 2008

Tulkerem, Nablus og Beit Dejan

Múrinn milli Tulkerem og Ísraels

Á laugardaginn fórum við Shana með Abe að heimsækja bernskuslóðir Abes og hittum ættingja sem hann á þar ennþá. Abe er fæddur og uppalinn í Tulkarem ásamt 11 systkinum, en þangað fluttu foreldrar hans, ásamt ömmu hans og afa, frá Nablus í kringum 1930. Abe yfirgaf Tulkarem árið 1953 og hélt til Túnis þar sem hann vann sér inn pening til þess að geta stundað nám í Bandaríkjunum. Hann sagði mér frá því að þegar hann kom til Bandaríkjanna átti hann 150 dali og föt til skiptanna. Eftir að hann lauk prófi í verkfræði giftist hann og eignaðist þrjú börn. Abe snéri ekki aftur til Palestínu fyrr en 50 árum síðar, árið 2004, þá tæplega sjötugur.

Fjölskylda Abes bjó áfram í Tulkarem allt fram til 1967, þegar sex daga stríðið braust út. Þar sem Tulkarem er við “landamæri” Ísraels og Palestínu flúðu þau til þorps rétt vestan við Tulkarem þar sem þau hugsuðu sér að vera á meðan átökin stæðu yfir. Nokkrum dögum seinna komu ísraelskar rútur til þorpsins og öllum íbúunum var gert að fara um borð. Rúturnar keyrðu svo fólkið að austurbakka Jórdanár. Abe sagði mér frá því hvernig fólkið, þar á meðal amma hans á áttræðisaldri, þurfti að koma sér fótgangandi til næsta bæjar í Jórdaníu. Ferðin tók tæpan sólarhring.
Nú býr fjölskylda Abes í Jórdaníu, Saudi Arabiu, Túnis, Bandaríkjunum og Egyptalandi. Hann orðaði það svo að Palestínumenn væru gyðingar 21. aldarinnar.

Konurnar í Beit Dejan

Við Tharwa fórum til Beit Dejan í gær að kenna síðasta skyndihjálparnámskeiðið! Og ekkert vesen á check-pointinu! Og ég er loksins búin að skila af mér efninu í handbókina. Það er ákveðinn léttir, en um leið er það endir á áhugaverðu tímabili sem hefur verið afskaplega gefandi. Burt séð frá því að hafa kynnst frábærum konum í Beit Dejan þá hef ég lært margt nýtt og rifjað upp gamalt. Í gær talaði ég við konurnar um fósturþroska og stiklaði þar á stóru enda tæki það heila önn að fara náið út í fósturfræðina. Konurnar, sem allar eiga helling af börnum, spurðu mig spjörunum úr; um hjartagalla, brjóstsviða á meðgöngu, þroskaskerðingu í kjölfar erfiðrar fæðingar, samvexti í legi, getnaðarvarnir, keisaraskurði og svo mætti lengi telja. Ég svaraði af bestu getu og ég lofsöng Guðrúnu Péturs í huganum.

Það hafði greinilega spurst út í þorpinu að við værum að fara að tala um meðgöngu og fæðingu því það var met aðsókn, venjulega mæta á bilinu 15-20 konur en í þetta skiptið mættu um 40 konur. Vegna fjöldans skapaðist svolítil ringulreið á köflum þannig að við þurftum að banka reglulega í borðið og biðja konurnar um að bíða með spurningar þangað til í lok hvers hluta. Eftir meðgönguhlutann töluðum við svo um fæðingu, hvernig hún skiptist í þrjú stig og hvernig skyndihjálpari á að bregðast við ef hann þarf að aðstoða við fæðingu. Eftir tímann komu sumar konurnar til okkar og spurðu enn frekar um hinar og þessar aðstæður sem þær, eða einhver nákomin þeim hefur upplifað. Síðasta spurningin var svo hvenær næsta skyndihjálparnámskeiðið yrði☺

Enskutíminn í Beit Dejan

Strax á eftir skyndihjálpina var ég svo með enskutíma í kvennamiðstöðinni að vanda og við lærðum um sögnina “to do” og konurnar í bekknum unnu útfyllingarverkefni sem ég hafði undirbúið daginn áður. Ein í bekknum er enskukennari og þegar hún er að gera villur og ég leiðrétti byrjar hún að tala um öll málfræðiheitin; “oh yeah definitive article in present simple”. Ég segi bara “aha” því ég hef ekki hugmynd um hvað hún er að fara. En það er bara gaman að vera í kringum konurnar og sjá hvað þær eru áhugasamar að læra eitthvað nýtt.

Krakkarnir í enskutímanum mínum upp í Project Hope

Þegar við komum svo aftur til Nablus fengum við Tharwa okkur að borða og ég fór með henni í bankann. Ég hafði svo rúman hálftíma til að slaka á upp á skrifstofu þangað til ég átti að kenna næsta tíma. Í þeim enskutíma töluðum við um hin ýmsu lönd en ég hafði sótt upplýsingar á wikipedia og prentað út. Krakkarnir lesa hver um sig um eitt land og svo fá allir tækifæri á því að segja það sem þeir vita um umrætt land. Ég hafði svo lofað Nagham, einni konunni úr bekknum, að fara saman á Jasmin að borða. Hún sagði mér söguna af því hvernig hún og maðurinn hennar, sem er gjaldkeri Jasmin og Project Hope, kynntust og sýndi mér myndir af sér frá því hún var yngri.

Um kvöldið fór ég svo að hitta Gunna og franska meðleigandann hans og við fórum í almenningsgarðinn. Þar hittum við fyrir Project Hope sjálfboðaliðana eins og þeir leggja sig, en um þessar mundir eru um 25 alþjóðlegir sjálfboðaliðar. Við hengum þar til ellefu um kvöldið að drekka svaladrykki og reykja nargilu.

Mánudagar eru góðir, á mánudögum get ég sofið út, á mánudögum kenni ég bara einn tíma og á mánudögum er sameiginlegur kvöldmatur meðal sjálfboðaliðanna. Ég svaf til hálf ellefu, tók servís niður að Dawar og fékk mér minn daglega ávaxtakokteil. Tók því rólega, hitti Fateen og rölti um bæinn.
Hitti svo PYALARA hópinn minn kl. 14 þar sem við ræddum um ferðalög og draumaáfangastaði. Ein stelpan stakk upp á því umræðuefni. Hana langaði mest til Ísraels, sjá Haifa sem hún hefur heyrt að sé falleg og hitta fyrir Ísraela því hana langar að skilja af hverju framferði ísraelskra yfirvalda gagnvart Palestínumönnum er liðið. En staðreyndin er sú að hún má og getur ekki farið þangað, sérstaklega þar sem hún er frá Nablus. Í lok tímans þurfti ég svo að segja krökkunum að nokkrir tímar munu falla niður næstu viku vegna þess að ég sé að fara að ferðast til Jórdaníu og Egyptalands. Þau samglöddust mér þó öll og óskuðu mér góðrar ferðar. Mér fannst erfitt að “glenna” ferðafrelsinu mínu framan í þau. Þessir ungmenni hafa ekkert unnið sér til sakar.

Friday, July 18, 2008

Daglega lífið í Nablus

Nú er farið að líða á seinni hluta verunnar hér í Nablus og tilfinningarnar eru blendnar. Sum kvöld hugleiði ég hvernig ég get frestað heimför en önnur langar mig sárlega að komast heim til Íslands.

Það hefur verið nóg að gera hjá mér alla virka daga svo ég get ekki kvartað undan aðgerðarleysi. Á sunnudögum er ég með skyndihjálparnámskeið og enskutíma í Beit Dejan frá 10 til 13. Til að komast til Beit Dejan, sem er í um 10 km fjarlægð frá Nablus, þarf maður að fara í gegnum check-point. Ástæðan er sú að það liggur landnemavegur þvert á milli Nablus og þorpanna í kringum borgina. Almennt gildir að þeir sem eru ekki íbúar í Beit Dejan og Beit Furik mega ekki fara gegnum þetta check-point. Það hefur því verið allt annað en auðvelt að komast þar í gegn til að sinna kennslunni því ég þarf að hafa með mér palestínskan sjálfboðaliða til að túlka fyrir mig skyndihjálpina.

Beit Dejan check-point

Við þurfum því að leggja af stað ekki seinna en 9 á morgnana til þess að vera viss um að vera komin til Beit Dejan á réttum tíma. Undantekningalaust hafa hermennirnir gert okkur erfitt að komast í gegn. Aðtburðarásin er yfirleitt svona:
Við bíðum þangað til járn-snúningshurðin er opnuð með rafrænum hnappi, það getur tekið frá nokkrum sekúndum upp í hálftíma Við löbbum gegnum snúningshurðina að kofanum þar sem hermennirnir eru. Flestir þeirra eru í kringum 20 ára, hlusta á útvarpið og narta í brauð og hummus. Þegar þeir sjá okkur glotta þeir og spyrja um vegabréf. Hjartað mitt slær á fullu, ekki af hræðslu heldur vegna óréttlætisins. Ég rétti þeim vegabréfið gegnum 10 cm breiða rauf, þau skoða það og spyrja svo á bjagaðri ensku hvaðan ég sé. Oftast bendi ég þeim á að lesa framan á vegabréfið enda stendur þar skýrum stöfum hvaðan ég sé. Næst spyrja hermennirnir hvað ég sé að gera í Nablus og hvað ég vilji til Beit Dejan. Ég segist dveljast í Nablus og sé að vinna þar fyrir Project Hope (ekki það að það sé ekki augljóst þar sem við klæðumst vel merktum vestum frá samtökunum). Svo er það palestínski sjálfboðaliðinn. Hvað er hann að vilja? Þau biðja hann um að framvísa persónuskilríki en þegar þau sjá að hann er frá Nablus segja þau að hann megi ekki fara í gegn. Ég spyr af hverju og svarið er af því að hann er frá Nablus. Ég spyr af hverju það sé og fæ engin svör. Þau endurtaka að hann megi ekki fara í gegn. Þá segist ég fara hér í gegn í hverri viku og ég þurfi að hafa með mér túlk. Þá ná þau í einhvern sem er hærra settur og yfirheyrslan er endurtekin. Hermaðurinn sem er hærra settur kallar einhvað í talstöðina og eftir 10 mínútur gefur hann okkur leyfi til að fara í gegn, enda vita yfirmenn hersins vel hver við erum. Við löbbum af stað gegnum aðra járn-snúningshurð og höldum af stað til Beit Dejan.

Konurnar að æfa vafninga

Burt séð frá check-pointinu er búið að vera rosalega gaman að kenna skyndihjálpina í Beit Dejan og konurnar eru með eindæmum áhugasamar. Næsta sunnudag verður síðasta námskeiðið og þá munum við tala um meðgöngu, fæðingu og fóturmissi. Það verður eflaust áhugavert að tala við konur sem flestar eiga fleiri en 10 börn um meðgöngu og fæðingu.

Á tröppunum fyrir utan skrifstofu Project Hope

Þegar ég kem svo til baka til Nablus frá Beit Dejan kenni ég enskutíma á skrifstofu Project Hope. Þann tíma kenni ég þrisvar í viku; á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 15 til 16. Bekkurninn samanstendur af 3 stelpum og 15 strákum. Flest þeirra eru háskólanemar á aldrinum 19 til 22 ára og koma í enskutímana beint eftir tíma í háskólanum. Í Nablus er fátt annað að gera en að fara beint í háskóla því þá opnast mögulega dyr út úr Nablus, einhvert annað í framhaldsnám. Litlar líkur eru þó á því að fá vinnu við sína sérhæfingu við námslok. Sem dæmi þekki ég sálfræðing sem er í palestínsku löggunni og hef hitt húsmóður og leigubílsstjóra með verkfræðimenntun. Við tölum um allt milli himins og jarðar í enskutímunum; pólitík, landafræði, fjölskyldu, trú, hetjur, sögu o.s.frv. Í flestum tilfellum er ég búin að undirbúa tímana fyrirfram en oftar en ekki förum við út fyrir áætluð viðfangsefni. Nemendurnir eru alveg afskaplega fróðleiksfúsir og metnaðarfullir. Sumir auðvitað meira en aðrir☺

Project Hope sjálfboðaliðar

Á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum hitti ég svo PYALARA hópinn minn í félagsmiðstöð þeirra og kenni ensku frá 14 til 15 eða 16. Þar er meirihluti nemendanna stelpur og eru á aldrinum 19-27 ára. Hópurinn er rosalega virkur og meðvitaður um hernámið og þau hafa gefið mér verðmæta innsýn í hugarheim ungs fólks á Vesturbakkanum. Ég hef eignast tvær góðar vinkonur þar, Malak og Isra, sem báðar eru 20 ára. Við förum saman eftir mánudags- og miðvikudagstímana, kaupum ís og setjumst saman í almenningsgarðinn. Malak er stelpa sem býr í þorpi rétt fyrir utan Nablus sem heimir Salem. Hún er að læra stærðfræði í háskólanum en dreymir um að vera listamaður. Hún teiknað alveg ótrúlegar myndir og hefur sérstakan áhuga á teikna myndir í japönskum teiknimyndastíl. Fjölskyldan hennar flutti aftur til Palestínu í fyrra eftir 17 ára dvöl í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hún bauð mér í heimsókn til sín á miðvikudaginn eftir tíma og ég sló til. Öll ættin hennar býr í Salem og búa skammt frá öðru í þorpinu. Ég fékk uppáhalds palestínska matinn minn, enda hafði Malak spurt mig fyrirfram. Fjölskyldan hennar, foreldrar, systur og bræður, tók vel á móti mér og allir voða forvitnir hvernig stæði á því að ég væri í Palestínu og hvernig mér líkaði. Að sjálfsögðu var boðið upp á te og með því eftir matinn en þá fór að streyma að ættingjar Malak og þau voru öll að tala um það hversu lík ég væri tyrkneskum sápuóperuleikara. Ég komst svo að því að sá leikari er ljóshærður og bláeygður karlmaður. Við Malak og nokkrir krakkar löbbuðum upp fjallið við útjaðar þorpsins og nutum útsýnisins yfir þorpið. Útsýnið í hina áttina var svo yfir fyrrnefnda landnemabyggð. Eftir að við komum niður í þorpið aftur teiknaði eldri systir Malak henna á hendina á mér. Þau vildu öll að ég myndi gista hjá þeim en ég afþakkaði pent enda virkur dagur daginn eftir og nóg að gera.

Á þriðjudögum og fimmtudögum er ég svo með enskutíma fyrir byrjendur í húsnæði frönsku menningarmiðstöðvarinnar frá 15 til 16. Þar er fólk á ýmsum aldri, frá 18 og upp úr. Fyrir mér er það erfiðasti tíminn vegna þess að fæstir eru færir um að mynda setningar á ensku nema að fá smá tíma til að undirbúa sig. Svo er málfræði kunnátta mín ekki upp á marga fiskana, hvað þetta allt heitir og reglurnar.

Tónleikar í háskólanum

Ég vakna oftast um 9 og tek servís niður að Dawar, sem er aðaltorgið í Nablus, þar sem ég kaupi mér ávaxtakoteil. Þaðan labba ég svo um 20 mínútna leið upp á skrifstofu með viðkomu í sjoppu og kaupi kók. Upp á skrifstofu hefst ég svo handa við að undirbúa tíma dagsins auk þess að vinna í skyndihjálparbæklingnum, sem er við það að vera tilbúinn í prent. Anas, palestínskur háskólanemi og sjálboðaliði hjá Project Hope, er búinn að þýða megnið af honum og Tharwa, skipuleggjandi enskutímanna, er þessa dagana að fara yfir þýðinguna. Svo er Ciora, írskur sjálboðaliði, að teikna myndir fyrir bæklinginn. Eftir vinnu er ýmist sjálboðaliðamatur, sjálboðaliðafundur, tóleikar, heimatilbúinn matur frá Fino eða heimboð. Ég er oftast komin heim um 22 á kvöldin og þá hefur maður rétt tíma til að fara í sturtu og svo að sofa.

Í íbúðinni minni

Ég er að vonast til að allt verði tilbúið fyrir prentun í næstu viku áður en ég fer til Amman, en þangað er ég að fara ásamt Gunnari, Cioru, Rozinu og Shanu 24. júli. Eftir að ég kem til baka, þann 28, langar mig að heimsækja öll þorpin þar sem ég kenndi skyndihjálp og afhenta bæklinga og viðurkenningarkjöl. Þess má geta að Félagið Ísland-Palestína hefur samþykkt að styrkja útgáfu bæklingsisns. Svo erum við Abe að spá í að fara til Egyptalands í byrjun ágúst og vera í viku og koma svo aftur til Nablus, sækja dótið okkar og kveðja. Hann flýgur heim 12 og ég 18, þannig að ég er að spá í að eyða síðustu dögunum í Haifa í afslöppun.

Jæja, þetta er alla vega planið eins og stendur fram að heimför. Mér finnst vera svo stuttur tíma þangað til ég kem.